Innlent

Fimmti sigurinn í röð

Hannes Hlífar Stefánsson fagnaði sínum fimmta Íslandsmeistaratitli í röð þegar hann gerði jafntefli við Jón Viktor Gunnarsson í síðustu skákinni í landsliðsflokki á Íslandsmótinu í skák. Hannes hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari. Hann er þó ekki á því að þetta sé orðið að vana. "Það er alltaf gott að vinna en maður venst því ekki. Þetta var mun erfiðara mót en oft áður og ég þurfti að hafa töluvert fyrir þessu," segir hann. Hannes var á því að úrslitaskákin hefði verið við Stefán Kristjánsson, sem náði öðru sætinu, en þar hefði Stefán saumað ansi hart að sér. Með sigrinum hefði hann náð forystu á mótinu sem hann léti ekki auðveldlega af hendi. "Í síðustu skákinni nægði mér jafntefli á móti Jóni Viktori og hafði hvítt þannig að þetta var mjög þægileg staða fyrir mig," segir Hannes. Hannes sagði forgangsverkefni hjá sér að hækka í stigum og nú vantaði bara nokkur upp á að hann kæmist inn á topp hundrað listann á heimsvísu. "Ég ætla að reyna bæta mig sem skákmaður og svo kemur í ljós hversu langt metnaðurinn drífur mig," segir nýbakaður Íslandsmeistarinn Hannes Hlífar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×