Innlent

Mun líklegri til sjálfsmorðs

Sam- og tvíkynhneigðir eru sex sinnum líklegri til að fremja sjálfsmorð en gagnkynheigðir. Aukin fræðsla og stuðningur gæti dregið úr þessu að mati sérfræðings á Akureyri sem flytur erindi á ráðstefnu í Færeyjum á morgun en ráðstefnan er undanfari fyrstu Gay Pride hátíðarinnar þar í landi. Sjálfsmorð samkynhneiðgra, tvíkynhneiðgra og kynskiptinga í litlum samfélögum verður meðal þess sem rætt verður á ráðstefnu í Færeyjum á næstu dögum en Eygló Aradóttir heldur út á morgun til að halda þar erindi. Þegar hafist var handa við að leita upplýsinga var ekki úr miklu að moða þar sem kynhneigð þeirra sem reynt höfðu að fremja sjálfsmorð kom ekki fram í skýrslum um þá. Þá talaði Eygló við barnageðlækni á Akureyri sem hafði aldrei fengið jáyrði frá sjúklingi þegar spurt var út í kynhneigð. Eygló segir áberandi meira um sjálfsmorðstilraunir hjá sam- og tvíkynhneigðum en gagnkynhneigðum. Tölur erlendis og óopinberar tölur hérlendis bendi til að tíðnin sé sex til tíu sinnum hærri en hjá gagnkynhneigðum. Munurinn er nokkur á litlum og stórum samfélögum. Eygló segir mun meiri félagslegan stuðning í stærri samfélögum og þar sé auðveldara að komast í kynni við sam- og tvíkynhneigða. Þar að auki sé meiri faglega hjálp að fá í stærri samfélögum en smærri. Aðspurð hvað hægt sé að gera til að sporna við þessu segir Eygló að auka megi fræðslu og að fólki sem líði illa sé bent á að leita sér hjálpar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×