Innlent

Tugþúsundir í bænum allan daginn

Talið er að um 90 þúsund manns hafi fylgst með flugeldasýningunni í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Menningarhátíðin yfir daginn gekk mjög vel og voru tugþúsundir manna í miðborginni frá morgni til kvölds. Vel á þriðja hundrað menningarviðburða var á dagskrá Mennningarnætur í gær og var ekki annað að sjá en að fólk kynni að meta það sem boðið var upp á. Fólki fór að fjölga í miðborginni upp úr hádegi en Menningarnóttin var formlega sett þegar ræst var út í Reykjavíkurmaraþoninu. Miðbærinn var svo orðinn vel þéttur af fólki um þrjúleytið og fram á kvöld fjölgaði fólki stöðugt. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Reykjavík komu engin alvarleg mál upp yfir daginn og voru menn þar á bæ ánægðir með hvernig til tókst. Tónleikarnir um kvöldið þóttu takast mjög vel, en meðal þeirra hljómsveita sem þar stigu á stokk var Todmobile. Flugeldasýningin hófst síðan klukkan ellefu og þá gerði líka slagveðursrigningu. Það var líkt og hellt væri úr fötu yfir mannsskapinn, en himnarnir lýstust upp þrátt fyrir rigninguna. Og fólkið naut þess að horfa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×