Innlent

Hlupu til styrktar sykursjúkum

Yfir tvö hundruð Kanadamenn tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í morgun. Fólkið var í líflegum búningum en hópurinn hleypur til styrktar rannsóknum á sykursýki í Kanada. Þetta er í þriðja sinn sem fólk frá Kanada kemur til að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar sykursjúkum. Kelly Webb, einn hlauparanna, segir Sykursýkisliðið hafa verið stofnað til þess að koma fólki í form og afla fé til rannsókna á sykursýki. Hópurinn vilji að lækning finnist við sykursýki 1 og koma í veg fyrir sykursýki 2. Chris Frasier, sem einnig er í hópnum, bendir á að sumir ráði engu um það að fá sykursýki. Faðir hans sé m.a. með sykursýki svo hann og bróðir hans hafi komið hingað til lands til að leggja málinu lið. Ísland sé fallegt land og æ fleiri ferðamenn komi hingað og þess vegna hafi það orðið fyrir valinu. Kanadamönnunum leist ágætlega á hið íslenska veður. Frasier segist hafa heyrt að menn geti upplifað allar árstíðirnar sama daginn. Það hafi aðeins rignt en vonandi komi sólin fljótt fram á milli skýjanna. Og hann reyndist sannspár. Það hætti að rigna og sólin lét sjá sig. Einn hlauparanna var fánamerktur í bak og fyrir í bókstaflegri merkingu og stemnningin var góð, en hann ætlaði að hjóla í stað þess að hlaupa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×