Innlent

Fjölbreytt dagskrá menningarnætur

Yfir 300 viðburðir verða í miðborg Reykjavíkur á menningarnótt sem haldin verður á laugardaginn í 10. sinn. Lögregla býst við allt að 100.000 gestum í miðborginni. Dagurinn hefst með ávarpi borgarstjóra og Reykjavíkurmaraþoninu verður hleypt af stað klukkan 11. Um það bil 300 viðburðir verða í boði yfir daginn og fram á nótt en Menningarnótt fer nú fram í tíunda sinn og verður danskur keimur af nóttinni þar sem Kaupmannahöfn er gestasveitarfélag borgarinnar þetta árið. Mikill undirbúningur hefur verið undanfarna daga og vikur og er farið að styttast í að fá heildstæða veðurspá fyrir daginn. Meðal listamanna sem finna má á hátíðinni er hljómsveitin Í svörtum fötum, Singapor Sling og Hjálmar, KK og Maggi Eiríks, karlakórinn Fóstbræður og margir fleiri. Dansarar Magdanshúsins koma fram sem og Götuleikhús Hins hússins og Íslenski dansflokkurinn. Eldgleypar og ýmis fleiri skemmtiatriði má finna fyrir unga sem aldna. Ótal margar listasýningar verða opnar langt fram á kvöld, sem og kaffihús, útimarkaðir og veitingahús en þar að auki verður boðið upp á guðsþjónustu fyrir þá sem vilja setjast niður og slaka á. Myndasýning frá Menningarnótt í fyrra verður í Ingólfsnausti í Aðalstræti og má þar rifja upp vel heppnaða Menningarnótt í flesta staði. Alþjóðahúsið blæs svo til karnivals í miðbænum þegar fylkt verður liði í litskrúðugri göngu niður Hverfisgötuna en tilgangur göngunnar er að fanga fjölbreytileika mannlífsins í Reykjavík. Klukkan 11 um kvöldið verður hátíðinni svo slitið með glæsilegri flugeldasýningu Orkuveitu Reykjavíkru. Það verður því úr nægu að velja á þeim tólf tímum sem hátíðin stendur yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×