Innlent

Löng bið eftir iðnaðarmönnum

Allt að tvo mánuði getur tekið að fá iðnaðarmann í vinnu og þótt hann komi er alls ekki víst að verkið klárist á tilsettum tíma. Þetta segir framkvæmdastjóri Handlagins.is. Hann segir að svona verði þetta líklega áfram. Vonlaust virðist að fá iðnaðarmenn og getur tekið allt að tvo mánuði að fá þá í vinnu, sama hvað gera þarf. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Handlagins.is, segir lítið benda til að það sé að breytast. Mikil eftirspurn sé eftir iðnaðarmönnum í öllum greinum. Sæmundur segir erfiðast að fá smiði, þá málara og pípulagningamenn. Í raun megi segja að nánast ómögulegt sé að fá iðnaðarmenn með litlum fyrirvara. Hann segir þó ekki rétt að verð hafi hækkað mikið vegna álagsins. Auðvitað sé það lögmál markaðarins að þegar mikið sé að gera sé hætt við því að verð hækki en hjá honum hafi ekki þurft að hækka það. Iðnaðarmenn hafa löngum haft það orð á sér að mæta seint og illa á vinnustað sinn og tekur Sæmundur undir það. Þegar mikið sé að gera eins og nú sé hætt við því að menn svari ekki og jafnvel dæmi þess að menn komi á staðinn og byrji á verki og láti sig svo hverfa til þess að halda mörgum verkum í gangi. Það sé mjög slæm framkoma og fólk verði að vara sig á henni. Sæmundur segir erfitt fyrir iðnaðarmenn að gera tilboð vegna allra þeirra hluta sem geta bæst við og farið úrskeiðis. Hann hvetur þó fólk til að láta iðnaðarmenn segja hvað hlutirnir kosti um það bil áður en hafist er handan. Sæmundur segir fólk sjaldan hafa verið eins duglegt við að gera upp eignir sínar og nú og hvetur fólk til að panta iðnaðarmenn með góðum fyrirvara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×