Erlent

Búseta Ísraela á Gaza bönnuð

Ísraelar innsigluðu Gaza á miðnætti í nótt og mörkuðu þannig formlegt upphaf brottflutnings landnema frá svæðinu. Búseta Ísraela þar er nú ólögleg. Ísraelskar og palestínskar hersveitir komu sér fyrir í gær til þess að gæta þess að brottflutningurinn færi vel fram. Í dagrenningu stóð til að ísraelskir hermenn hæfust handa við að banka á dyr landnema og benda þeim á að búseta þeirra væri ekki lengur leyfð. Á miðvikudag verður síðan byrjað að flytja fólk burt með valdi. Mikil áhersla er lögð á að hersveitirnar sýni stillingu við brottflutninginn. Óttast er að óeirðir brjótist út þar sem vitað er að þúsundir andstæðinga brottflutningsins eru komnir til svæðisins. Þúsundir landnema hafa auk þess lýst því yfir að þeir fari hvergi. Þúsundir palestínskra lögregluþjóna hafa einnig komið sér fyrir nærri landnemabyggðunum. Þeir hafa fengið fyrirmæli um að halda Palestínumönnum fjarri meðan brottflutningurinn fer fram til þess að koma í veg fyrir árásir vígamanna. Viðbúið er að slíkt myndi kalla á hörð viðbrögð Ísraela.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×