Erlent

Reglur nái til vefsíða

Búist er við að nýjar reglur um sæðisgjöf verði settar fram í Bretlandi á allra næstu dögum. Eins og staðan er núna þurfa heimasíður sem bjóða upp á sæði til kaups ekki að uppfylla sömu skilyrði og heilsugæslustöðvar þar sem sæðing fer fram. Til dæmis er alls ekki alltaf búið að kanna hvort sæði sem keypt er í gegnum heimasíður sé smitað af alnæmi eða hvort það beri einhverja arfgenga sjúkdóma. Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa haft af þessu nokkrar áhyggjur og er nú ætlunin að herða eftirlit með þessu. Nokkuð mikið úrval er af vefsíðum sem bjóða upp á sæði og sæðingartól til kaups fyrir konur sem óska eftir að verða þungaðar án þess að karlmaður komi þar við sögu. Margar fleiri spurningar vakna um sæði sem fengið er með þessum leiðum. Börn sem verða til í tæknifrjóvgun á heilsugæslustöðvum verði aldrei tengd við líffræðilegan föður sinn en sama gildir alls ekki um börn sem getin eru með sæði sem fengið er í gegnum netið. Menn sem selja sæði sitt með þessum leiðum gætu því fengið það í hausinn og verið dæmdir til að borga meðlag með líffræðilegum börnum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×