Innlent

Salmonella í innfluttu grænmeti

Salmonella fannst í sjö prósentum ferskra kryddjurta og annarra ferskra matvara frá Taílandi, í nýrri könnun umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Umhverfisstofnun ráðleggur neytendum að meðhöndla ferskar matvörur frá Taílandi þannig að lágmarkslíkur séu á krossmengun. Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur að beiðni Umhverfisstofnunar rannsakað ferskar kryddjurtir, grænmeti og ávexti sem koma frá Tælandi. Sjö prósent sýnanna reyndust sýkt. Ástæða þess að farið var í athugunina er viðvörun Norðmanna en þar greindist salmonella í 25 prósentum tilvika í rannsókn sem þeir gerðu á sambærilegum vörum. Baldvin Valgarðsson, matvælafræðingur hjá Umhverfisstofnun, sagði að það hefðu verið tekin sýni af taílensku grænmeti og kryddjurtum og það fannst salmonella í þremur sýnum af fjörutíu og tveimur. En auk þess voru einnig saurkóligerlar og ekóligerlar í nokkrum sýnum. Niðurstöðurnar reyndust betri en búist hafði verið við en þær eru samt ekki viðunandi að sögn Baldvins. Hér voru niðurstöðurnar svipaðar og í Svíþjóð. En mörgum kemur eflaust á óvart að salmonella finnist í ferskum matvælum úr jurtaríkinu. Baldvin sagði að nátturuleg heimkynni salmonellu væri jarðvegur og neysluvatn. Og í þessu tilfelli hefur líklega orðið mengun á ræktunarstigi og síðan dreifst áfram. Sýnin þrjú sem reyndust vera salmonellusýkt koma frá sitt hverjum framleiðandanum í Tælandi. Þeir sem fluttu þau inn verða að sýna fram á að tvær næstu sendingar frá sama framleiðanda séu ósýkt. Gangi það ekki eftir verður sett bann á ínnflutning frá þeim framleiðanda. Til að forðast að smit komist yfir í tilbúin matvæli er ráðlegt er að skola vel kryddjurtir, ávexti og grænmeti, sem hugsanlega eiga uppruna í Tælandi. Þá er best að nota vörurnar aðeins í rétti sem hitaðir eru upp fyrir 75 gráður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×