Erlent

Brottfluttir flóttamenn snúa aftur

Írakskir flóttamenn með dvalarleyfi í Danmörku, hafa eins árs umhugsunarfrest eftir að þeir fara heim. Ef þeir vilja snúa aftur til Danmerkur innan árs, er þeim það heimilt. Í danska dagblaðinu Politiken segir í dag að frá stríðslokum vorið 2003 hafa um tvö hundruð og fimmtíu Írakar flutt til baka til Írak. Og þótt ekkert jafnist á við föðurlandið hafa þeir þurft að kljást við afar erfiðar aðstæður þar sem bílsprengjur springa daglga, fólki er rænt og grunnþættir, svo sem vatn, matur og lágmarksheilbrigðisþjónusta er ekki alltaf til staðar. Sumir hafa verið sakaðir um að vinna fyrir bandamenn, en Danmörk studdi innrásina í Írak. Því notfæra margir sér það ákvæði að þeir megi koma aftur til Danmerkur innan árs. Því er ólíku saman að jafna, hinu rólega, örugga danska samfélagi og suðupottinum í Írak. Staðan er nú þannig að æ færri írakskir flóttamenn í Danmörku óska eftir því að fara heim. Í fyrra fór hundrað fjörutíu og einn en í ár hafa einungis tuttugu og níu haldið heim á leið. Af sex hundruð flóttamönnum sem hefur verið hafnað um dvalarleyfi hafa tuttugu og sjö farið heim. Stefna danskra stjórnvalda er þó enn að senda sem flesta Íraka heim. Tvær danskar hjálparstofnanir hafa opnað skrifstofur í borgunum Basra og Arbil til að aðstoða Íraka sem flytja þangað eftir dvöl í Danmörku. Einn flóttamannanna sem er snúinn aftur til Danmerkur segist ekki skilja þennan æsing stjórnvalda, honum finnst að enginn ætti að hætta sér til Íraks eins og ástandið er í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×