Innlent

Atvinnulausum fer fækkandi

Þrjúþúsund eitthundrað þrjátíu og fimm manns voru að jafnaði atvinnulausir í júlímánuði, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Það jafngildir tveggja prósenta atvinnuleysi. Skráðir voru 65.837 atvinnuleysisdagar á landinu öllu. Þeim fækkaði um 3,3% á milli mánaðanna júlí og júní. Munurinn er enn meiri sé júlí borinn saman við sama tíma á síðasta ári, því skráðir atvinnuleysisdagar eru þrjátíu og þremur prósentum minni í ár en þá. Atvinnuleysi hefur því minnkað um eitt prósentustig. Fækkunin er mun meiri á meðal karla en kvenna. Langtímaatvinnulausum hefur einnig fækkað. Þannig voru tuttugu og níu prósent atvinnulausra í júlí langtímaatvinnulausir, þ.e. höfðu verið án atvinnu í meira en hálft ár. Í júní var hlutfallið þrjátíu og tvö prósent. Hjá Greiningardeild KB banka sjá menn merki um að tekið sé að volgna á atvinnumarkaði, sem sést á því að lausum störfum hefur fækkað tvo mánuði í röð. Greiningardeild Landsbankans telur líkur á að launaskrið fari af stað fyrir vikið. Í síðustu uppsveiflu tók ástandið á vinnumarkaði að þrengjast mjög um það bil sem atvinnuleysið fór niður fyrir 2%, en það var í ársbyrjun 1999. Greiningardeild Landsbankans miðar við þá tölu sem einskonar viðmiðunargildi varðandi vanþol vinnumarkaðarins. Nú þegar atvinnuleysið er komið niður að þessum mörkum gera sérfræðingar Landsbankans ráð fyrir að líkur á almennu launaskriði hafi aukist verulega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×