Erlent

Neyðarlög á Sri Lanka

Yfirvöld á Sri Lanka hafa sett í gildi neyðarlög í landinu, eftir að utanríkisráðherra landsins, Lakshman Kadirgamar var skotinn til bana í gærkvöldi. Lögreglan hefur ásakað hreyfingu Tamíltígra um að bera ábyrgð á morðinu, en hún neitar því að hafa haft nokkuð með það að gera. Kadirgamar var skotinn til bana af leyniskyttu við heimili sitt í höfuðborginni Colombo í gærkvöldi. Hann var sjálfur Tamíli, en var einn harðasti andstæðingur hreyfingar Tamíltígranna, sem börðust árum saman fyrir eigin ríki á norðurhluta eyjunnar með hryðjuverkum og skæruhernaði. Samið var um vopnahlé árið 2002, sem hefur að mestu haldið, þótt Tamíltígrarnir haldi því fram að herinn hafi haldið áfram árásum á Tamíla á laun. Lögreglan hefur ásakað hreyfingu Tamíltígra um að bera ábyrgð á morðinu, en hún neitar því að hafa haft nokkuð með það að gera. Forseti landsins, Chandrika Kumaratunga hefur ekki gengið svo langt að ásaka Tamíltígrana berum orðum, en segir ljóst að pólitískir andstæðingar hafi þarna verið að verki. Með neyðarlögunum geta yfirvöld á Sri Lanka sent hersveitir hvert sem er og þau geta einnig haldið þeim sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkum án ákæru og gert húsleitir og jafnvel jafnað byggingar við jörðu, án sérstaks leyfis. Allt er með kyrrum kjörum eins og er í Colombo, en bæði yfirvöld og yfirmenn alþjóðlega friðargæsluliðsins á Sri Lanka telja vopnahléð, sem haldið hefur að mestu síðan árið 2002, í verulegri hættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×