Erlent

Milljónir svelta heilu hungri

Milljónir íbúa Afríkulýðveldisins Nígers svelta heilu hungri. Þurrkur og skæður engisprettufaraldur hefur eyðilagt uppskeruna þar samfellt í tvö ár með hörmulegum afleiðingum. Ástandið í Níger er mjög alvarlegt. Börn svelta, milljónir þurfa á matargjöfum að halda og hjálpin berst ekki nógu hratt. Í Níger, eins og mörgum landanna í Vestur-Afríku nærri Sahara-eyðimörkinni, er ástandið alltaf slæmt á þessum árstíma þegar matur er af skornum skammti eftir að uppskera síðasta árs er uppurin og uppskera þessa árs ekki komin í hús. Adjibade Aboudou Karimou, fulltrúi UNICEF á staðnum, segir að jafnvel þau ár sem uppskera sé góð standi menn frammi fyrir vannæringu barna. Þau séu berskjölduð því tekjudreifingin sé í hinu mjög svo hefðbundna fjölskyldumynstri sem byggist á feðraveldi þar sem karlmaðurinn eigi allt. En í ár er ástandið verra en venjulega þó að deilt sé um ástæðurnar. Þurrkurinn er sá sami og venjulega en engisprettur valda gríðarlegu tjóni á uppskerunni. Þær hafa ekki verið skæðari í fimmtán ár. Forseti landsins heldur því samt fram að það sé enginn hungursneyð í landinu, sem er ekki fjarri sanni í bókstaflegum skilningi orðsins hungursneyð, þ.e. að það sé enginn matur til í landinu. Flestir bændur og fjölskyldur þeirra lifa á eigin uppskeru og þegar hún bregst kaupa þeir það sem vantar á markaði. En nú ber svo við að þar fæst lítið því að umframframleiðslan var seld til nágrannaríkja sem geta borgað hærra verð. Það sem eftir er kostar meira en bændurnir geta borgað, jafnvel þó að niðurgreiðslur stjórnvalda komi til. Gagnrýnendur segja að misheppnuð markaðsvæðing Nígers sé því ástæða hungursneyðar meðal hluta íbúanna, aðrir segja vandann hafa verið til staðar um árabil og að ekki hafi verið brugðist við. Matarsendingar og neyðarhjálp sé til dæmis nýtilkominn. Enn aðrir benda á langtímavandann. Peter Bieler hjá Þróunarsamvinnustofnun Sviss, segir að hægt sé að veita aðstoð nú en spyr sig hvað muni gerast á næsta ári. Jafnvel þótt ástandi verði ekki jafnalvarlegt verði samt vannærð börn í landinu. Bieler segir alþjóðasamfélagið verða að grípa til langtímaðagerða til að ráða við vandamál eins og í Níger. Talsmenn samtakanna Læknar á landamæra segja tuttugu prósent barna undir fimm ára aldri þjást af vannæringu og að mörg þeirra séu við dauðans dyr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×