Erlent

Bakri fær ekki að snúa aftur

Múslimaklerkurinn Omar Bakri fær ekki aftur að koma til Bretlands þar sem breska ríkisstjórnin telur veru hans í landinu ekki vera lengur "til almannaheilla". Bakri, sem er með líbanskan og sýrlenskan ríkisborgararétt, hefur búið í Bretlandi síðustu tuttugu árin. Hann hefur lengi sætt ámæli fyrir öfgafull viðhorf sín og eftir sprengjuárásirnar í Lundúnum í síðasta mánuði hvatti hann trúbræður sína til þess að gefa ekki upplýsingar sem gagnast gætu lögreglu. Í kjölfarið sá hann sér þann kost vænstan að halda til Líbanon en nú hefur breska innanríkisráðuneytið hins vegar tilkynnt honum að hann fái ekki að snúa aftur. Afar fátítt er að erlendum ríkisborgara sem hefur búið svo lengi í Bretlandi sé meinað að koma aftur inn í landið eftir dvöl erlendis. Anjem Choudary, félagi Bakri, segir hann hlíta ákvörðuninni en eftir sem áður myndi hann láta rödd sína heyrast í Bretlandi sem annars staðar. Talsmenn hófsamari múslima í Bretlandi lýstu yfir ánægju sinni með að Bakri fengi ekki að snúa aftur og sögðu hann hafa svert ímynd þeirra. Í fyrradag handtók breska lögreglan annan klerk, Jórdanann Abu Qatada, við níunda mann en þeir eru taldir ógna öryggi landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×