Erlent

Útilokar ekki frekari lokanir

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, útilokar ekki að landnemabyggðum á Vesturbakkanum verði lokað, þó ekki þeim stærstu. Ísraelsher flytur í næstu viku landnema af Gaza-ströndinni með valdi. Margir hafa skoðað áætlanir Ariels Sharon um afnám landnemabyggða á Gaza-ströndinni sem lið í því að styrkja slíkar byggðir á Vesturbakka Jórdanar. Forsætisráðherrann ræddi þessi mál við Yediot Ahronot-dagblaðið í gær en þar kom fram að fleiri byggðir myndu hugsanlega bætast í hóp þeirra fjögurra á Vesturbakkanum sem þegar væri búið að ákveða að leggja niður. Hann ítrekaði þó að Ísraelar myndu aldrei gefa stærstu byggðirnar eftir. Í næstu viku byrjar Ísraelsher að flytja þá 9.000 landnema af Gaza sem vilja ekki fara með valdi. Varnarmálaráðuneytið býst við að 3.000 manns flykkjist á svæðið til þess að tefja brottflutninginn. Því verður bætt við fjölda hermanna í aðgerðinni og verða þeir þá alls 55.000. George W. Bush Bandaríkjaforseti kvaðst í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð í vikunni styðja brottflutninginn frá Gaza.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×