Erlent

Ísraelar íhuga aðgerðir gegn Íran

Kjarnorkuáætlun Írana kemur illa við kauninn á Ísraelsmönnum, sem íhuga aðgerðir til að trufla eða eyðileggja hana. Ísraelsmönnum lýst ekki vel á að Íran verði kjarnorkuvætt og hafa lengi velt því fyrir sér hvernig hægt væri að koma í veg fyrir það. Daily Telegraph fjallar um málið í dag og segir þar að mörgum hugnist vel svipuð lausn og fannst 1981 þegar ráðist var á kjarnorkuver í Írak. Íranar eru hins vegar skrefi á undan Ísraelsmönnum, að því er virðist, og hafa komið kjarnorkuverkefnum sínum fyrir á níu stöðum sem eru vel faldir og grafnir undir mörgum tonnum af styrktri steypu. Jafnvel með öflugustu sprengjum sem til eru væri erfitt að eyðileggja kjarnorkuvinnslustöðvarnar. Að auki er óljóst hvernig Ísraelsher ætti að komast í skotfæri því að leiðin frá Ísrael til Íraks er nokkuð löng og liggur um Írak. Óvíst er að Bandaríkjamenn, sem ráða lofthelgi Íraks, heimiluðu ísraelskum orrustuþotum að stytta sér leið yfir Írak á leið til árása í Íran. Besti möguleikinn er talinn að skjóta flugskeytum úr kafbátum en jafnvel þá tækist aðeins að valda skemmdum og hugsanlega tefja þróun kjarnorkuvopna. En með hliðsjón af því að talið er að Íranönum takist í fyrsta lagi að útbúa kjarnorkusprengju 2008 og líkast til ekki fyrr en 2012 segjast talsmenn ísraelskra stjórnvalda enn sem komið er halda í þá von að aðrar lausnir finnist og að samningaviðræður leiði til árangurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×