Innlent

Guðni svarar dýralæknum

Guðni Ágústsson furðar sig á gagnrýni dýralækna á ráðningu forstjóra Landbúnaðarstofnunar og ákvörðun um staðsetningu stofnunarinnar. "Þetta eru ákvarðanir sem ég hef tekið og þær standa," segir Guðni. "Ég er ekki síst undrandi á því að hæfni Jóns Gíslasonar sé dregin í efa. Dýralæknar verða að átta sig á því að hann hefur sótt hluta af sínu námi í dýralæknaskóla, hefur mikla reynslu og var valinn sem fremstur meðal jafningja úr 23 manna hópi." Guðni segir Embætti yfirdýralæknis vera varðað með lögum innan Landbúnaðarstofnunar og hann haldi því sinni stöðu sem hinn æðsti sérfræðingur í þeim málaflokki. "Forstjórinn og Yfirdýralæknir eru hið sterka teymi í stofnuninni og munu vinna náið saman." Að sögn Guðna var það ákvörðun Alþingis að stofnunin yrði utan höfuðborgarsvæðisins. "Mín niðurstaða var að velja Selfoss, sem ég held að allir sjái að sé mjög góður staður. Við horfum björtum augum á framtíðina og förum fljótlega að leita að góðu húsnæði undir stofnunina."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×