Erlent

Sagðir ógnun við öryggi landsins

Breska lögreglan hefur handtekið tíu útlendinga sem taldir eru ógna öryggi landsins. Þeim verður að líkindum vísað úr landi og framseldir til heimalanda sinna, þar sem þeir eru flestir eftirlýstir. Lögreglusveitir og starfsmenn breska útlendingaeftirlitsins réðust í vikunni inn á heimili í Leicester, Luton og Lundúnum og handtóku þar tíu erlenda ríkisborgara. Charles Clarke innanríkisráðherra staðfesti í samtali við BBC að mennirnir væru í varðhaldi þar sem þeir væru taldir ógna þjóðaröryggi. Hann hvorki nafngreindi mennina né útskýrði hvers vegna þeir væru hættulegir. Samkvæmt heimildum BBC er einn mannanna Abu Qatada, jórdanskur múslimaklerkur sem áður hefur verið í haldi bresku lögreglunnar. Hann hefur verið dæmdur í ævilangt fangelsi í heimalandi sínu, að sér fjarverandi, fyrir aðild að sprengjutilræðum og er búist við að hann verði framseldur þangað. Bresk lög banna framsal fanga til landa þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Clarke sagði að samkomulag hefði verið gert við jórdönsk stjórnvöld um að Qatada yrði ekki pyntaður eða látinn sæta illri meðferð að öðru leyti. Mannréttindasamtök gefa hins vegar lítið fyrir þann samning. Hinir mennirnir eru sagðir Alsíringar og Líbanir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×