Innlent

Loka á áskrifendur SKY á Íslandi

Samtök myndrétthafa á Íslandi, Smáís, hafa komist að samkomulagi við SKY sjónvarpsstöðina að hér eftir verði ekki hægt að greiða fyrir áskriftir með íslenskum kreditkortum. Hafa nokkrir söluaðilar auglýst aðgang að stöðvum SKY, þar á meðal enska boltanum, með sérstökum búnaði til þess arna en nú er að mestu loku fyrir það skotið að það sé hægt. Áskrifendur eru fjölmargir hér á landi þrátt fyrir að það sé strangt til tekið ólöglegt enda sýnir SKY efni sem innlendir aðilar eiga rétt á. Hafa enda margir þurft að fara krókaleiðir til að greiða mánaðarlega fyrir áskriftir sínar og hefur slíkt yfirleitt þurft að fara í gegnum þarlendan aðila. Samkvæmt fréttatilkynningu mun Smáís grípa til frekari aðgerða hjá þeim fyrirtækjum sem halda áfram að auglýsa áskriftir að SKY enda skekkir slíkt samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla að etja kappi við slíka starfsemi. María Rúnarsdóttir, fjármálastjóri hjá Svar Tækni, sem auglýsti slíkt síðast í sumar, segir þetta engu breyta. Áfram verði seldur sá gervihnattabúnaður sem til þurfi enda SKY ekki eina sjónvarpsstöðin sem hægt sé að ná með slíkum búnaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×