Innlent

250 lán veitt til listaverkakaupa

KB banki hóf að veita vaxtalaus lán til listaverkakaupa á menningarnótt á síðasta ári. Lánin eru veitt í samstarfi bankans, menningarráðs Reykjavíkur, sextán listgallería og viðkomandi listamanna. "Við erum afar ánægð með viðtökurnar og höfum afgreitt fjölmörg lán," segir Þóra Briem, starfsmaður KB banka, en hún annast lánveitingarnar fyrir hönd bankans. Hægt er að fá lán frá 36.000 krónum og upp í 600.000 og þarf listaverkakaupandinn að greiða út tíu prósent kaupverðs. Afganginn lánar bankinn vaxtalaust til allt að þriggja ára. "Við höfum veitt lán frá 50.000 krónum og upp í hámarkið en flest lánin eru upp á 200 til 300.000 krónur," segir Þóra sem hefur ekki nýtt sér listaverkalánin sjálf. KB banki hefur heimild til að sækja listaverkið standi kaupandi ekki í skilum en aldrei hefur komið til þess. Lántakendur eru enda valdir af kostgæfni, farið er yfir skuldaskilasögu fólks og sé það á vanskilaskrá er umsóknum hafnað. Þóra þarf ekki að setja sig í listfræðilegar stellingar þegar fólk óskar eftir láni, bankinn lætur galleríunum eftir að meta hvort um viðurkennda list er að ræða eður ei. Fyrirmynd listaverkalánanna er finnsk og er Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi frumkvöðull lánveitinganna hér á landi. Sá hann fyrir sér að með þeim væri hægt að styrkja listalífið í landinu. Er það eflaust raunin enda hafa um 250 listaverk verið keypt síðasta árið í krafti lánanna. Þóra segir lántakendur vera á öllum aldri og í viðskiptum við alla banka landsins og að auki greinilegt að smekkur þeirra fyrir listum sé af öllum toga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×