Innlent

Blöskrar meðferð á landi

Umhverfisverndarsinnum blöskrar meðferð aðstandenda kvikmyndarinnar Flags of Our Fathers á landsvæðinu í Sandvík þar sem tökur fara nú fram. Í fréttum Stöðvar 2 í gær mátti meðal annars sjá sviðinn gróður eftir eldvörpur á mjög stóru svæði. Þegar fréttastofa Stöðvar 2 náði myndum af tökusvæði myndarinnar Flags of Our Fathers í gær mátti greinilega sjá vegsummerki eftir tökuliðið. Eldvörpur voru notaðar til að brenna gróður á ströndinni, skotgrafir voru grafnar og rústir hafa verið byggðar á um kílómetrakafla með fram ströndinni. Þá má búast við enn frekara jarðraski vegna sprenginga og umferðar hernaðartækja á svæðinu á næstu vikum og dögum. Gunnþór Ingason, sóknarprestur og umsjónarmaður Krísuvíkurkirkju, segir tökuliðið fara fram með glæfralegum hætti. Hann segir svæðið sem um ræðir ekki aðeins vera viðkvæman stað út frá umhverfisverndarsjónarmiðum heldur harmar hann einnig að Sandvíkin, sem hann segir helgan stað, skuli vera notuð til að upphefja stríðsátök. Gunnþór segir því ekki aðeins um mikil umhverfisspjöll að ræða heldur einnig menningarleg og söguleg. Aðrir umhverfisverndarsinnar sem fréttastofan ræddi við tóku undir orð Gunnþórs og sögðu umhverfisáhrifin mun meiri í fyrstu var talið miðað við myndefnið sem sást í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×