Innlent

Segja gróflega vegið að dýralæknum

Dýralæknafélag Íslands mótmælir því harðlega að ekki hafi verið ráðinn dýralæknir í starf forstjóra nýrrar Landbúnaðarstofnunar. Einnig tekur félagið undir gagnrýni starfsmanna embættis yfirdýralæknis á staðsetningu stofnunarinnar á Selfossi. Forystumenn félagsins segja að Jón Gíslason, sem hóf störf í byrjun ágúst, hafi jaðarmenntun með tilliti til starfssviðs stofnunarinnar. Landbúnaðarstofnun tekur til starfa í byrjun næsta árs og langflestir starfsmenn Landbúnaðarstofnunar eru núverandi starfsmenn yfirdýralæknis, en einnig munu nokkur smærri embætti heyra undir hana. Dýralæknafélagið segir gróflega vegið að dýralæknum með ráðningunni, en nokkrir dýralæknar sóttu um hana. Þó er tekið fram í ályktun félagsins að henni sé ekki beint gegn Jóni og að þeir muni kappkosta að eiga gott samstarf við hann í framtíðinni. Ekki náðist í Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×