Erlent

Finnsk þyrla fórst í Eystrasalti

Tólf manns eru taldir af eftir að eistnesk þyrla hrapaði í Eystrasalt skömmu eftir flugtak. Brak hefur fundist af þyrlunni en engin lík. Þyrlan var af gerðinni Sikorsky 76 og var í eigu finnska flugfélagsins Copterline. Hún var á leið frá Tallinn, höfuðborg Eistlands, til Helsinki í Finnlandi en nokkrum mínútum eftir flugtak hvarf hún af ratsjá eistneskra flugumferðarstjóra. Ekki er vitað hvað gerðist en veður var afar vont á þessum slóðum um hádegisbilið í gær þegar slysið varð. Björgunarsveitir voru þegar sendar á vettvang og fann ómannaður kafbátur fljótlega flakið á um 48 metra dýpi. Ekki hafa þó fundist lík þeirra sem voru um borð. Andrus Ansip, forsætisráðherra Eistlands, sagði að engin von væri til þess að nokkur úr þyrlunni fyndist á lífi. Kari Rajamaki, innanríkisráðherra Finnlands, hefur þegar sent ættingjum þeirra sem voru um borð samúðarkveðjur sínar. Flugmennirnir voru finnskir, svo og sex farþeganna. Fjórir Eistar voru sömuleiðis um borð og tveir Bandaríkjamenn. Nöfn þeirra hafa ekki verið gefin upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×