Innlent

Bíða eftir búnaði vegna boltans

Ný sjónvarpsstöð, Enski boltinn, fer í loftið nú á föstudaginn og enn bíður fjöldi manns eftir að fá þar til gerðan búnað afgreiddan hjá Símanum til að geta séð stöðina þrátt fyrir að hafa pantað áskrift fyrir talsverðum tíma. Síminn vonast til að allir sem pantað hafi þjónustuna verði komnir með aðgang að stöðinni fyrir helgi. Talsvert hefur borið á því að fólk hafi þurft að bíða í lengri tíma eftir að starfsmenn Símans geti mætt og sett upp nauðsynlegan búnað á heimum fólks. Sumir sem pantað hafa Enska boltann segjast hafa þurft að bíða í allt að því mánuð eftir afgreiðslu og sem dæmi ritar kvikmyndagerðarmaðinn Björn Brynjólfur Björnsson gerin í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir bíðtíman eftir afgreiðslu á sjónvarpsstöðinni vera 4-6 vikur. Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir mikinn fjölda manns hafa sóst eftir því að fá tengingu við hina nýju sjónvarpsstöð á síðustu dögum og vikum og að eftirspurnin hafi farið fram úr björtustu vonum. Eva segir aftur á móti að Síminn sé nú að bregðast við þessari auknu eftirspurn og hefur starfsmönnum við uppsetningu á nauðsynlegum búnaði til að sjá stöðina verið fjölgað talsvert og vonast hún til að allir sem pantað hafi áskrift að stöðinni verði komnir með aðgang fyrir helgina. Eva bendir einnig á að fjöldi fólks á biðlista sé einungis að sækjast eftir ADSL-tengingum hjá Símanum án áskriftar að Enska boltanum og því sé biðtíminn ekki eins langur og margir hafa haldið fram. Síminn tekur jafnframt fram að áskrifendur að Enska boltanum hafi forgang á við aðra svo að sem flestir verði tengdir þegar flautað verður til leiks í þessari vinsælustu knattspyrnudeild heims nú á laugardaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×