Innlent

Slasaðist illa í útskriftarferð

Tæplega tvítugur íslenskur piltur slasaðist illa er hann kastaðist úr leiktæki í tívolíi í spænska bænum Torremolinos í fyrrakvöld. Pilturinn er nemandi í Menntaskólanum við Sund og er í útskriftarferð ásamt um 150 samnemendum sínum. Unnusta hans og vinir voru með honum í tívolíinu og horfðu á eftir honum út úr tækinu. Leiktækið sem um ræðir mun vera þeytari, sem snýst á mikill ferð. Öryggisstöng sem átti að halda honum föstum brást með þeim afleiðingum að hann kastaðist úr tækinu og lenti illa. Hann meiddist töluvert á baki og höfði og var fluttur af vettvangi með sjúkrabíl. Hann reyndist þó óbrotinn en ekki hafði verið útilokað seint í gærkvöld hvort um innvortis meiðsl væri að ræða. Pilturinn fór þó að eigin ósk af sjúkrahúsinu í gær en hélt kyrru fyrir á hóteli Íslendinganna í staðinn. Móðir piltsins fór utan nú í morgun vegna slyssins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×