Innlent

Lappað upp á Laugardalslaug

Það koma margir argir sundmenn frá Laugardalslauginni þessa dagana. Þeir fá ekki sundsprettinn sinn, því laugin er lokuð til þrettánda ágúst vegna viðhalds. Það á sér þó sínar skýringar að laugin sé lokað á þessum árstíma. Það er dálítið sérstakt um að litast í Laugardalslauginni þessa dagana. Ekkert vatn og engir gestir en hins vegar handverksmenn úti um allt. Laugardalslaugin er komin til ára sinna og þarf auðvitað sitt viðhald eins og önnur mannvirki. En er ágúst rétti tíminn til til þess? Stefán Kjartansson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir þetta mjög góðan tíma fyrir umsjónarmenn sundlaugarinnar því aðsókn sé einna minnst í ágústmánuði. Sundlaugin verði hins vegar að vera tilbúin þegar skólar og sundæfingar hefjast. Það er dálítið annað að tæma heila sundlaug en að taka tappann úr baðkarinu sínu. Meðal annars út af fúgunum sem þarf að vökva svo þær springi ekki. Og svo er það hitastigið. Það verður að hleypa hægt úr lauginni svo flísarnar springi ekki við hitamismuninn. Sérstakir hitamælar eru í botni og veggjum til þess að fylgjast með hitastiginu. Það þarf því að tæma laugina hægt og það tekur heila tvo sólarhringa að leka úr henni og það þýðir því ekkert að reyna svona að vetri til. Góðu fréttirnar fyrir sundmenn eru þær að allar aðrar sundlaugar á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru opnar, en svo verður Laugardalslaugin glansandi fín og falleg þegar hún verður opnuð aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×