Innlent

Veitt sé inni á hvalaskoðunarsvæði

Hvalaskoðunarskipið Hafsúlan sigldi nýlega fram á hvalshræ nálægt innsiglingunni í Reykjavíkurhöfn. Framkvæmdastjóri Hafsúlunnar segir vísindaveiðarnar komnar inn á svæði hvalaskoðunarskipanna gegn loforðum stjórnvalda. Guðmundur Gestsson, framkvæmdastjóri Hafsúlunnar, segir vísindaveiðarnar hafa slæm áhrif á starfsemi hvalaskoðunarskipa. Það sé sérstaklega slæmt að veiðarnar séu inni á hvalaskoðunarsvæðum. Þetta viti forsvarsmenn Hafsúlunnar vegna þess að veiðimennirnir hafi spurt hvort farið sé í aukahvalaskoðunarferðir eftir klukkan átta. Það sé enginn annar tilgangur með þeirri spurningu en sá að þeir fari aftur út og veiði hvali á svæðunum þar sem hvalir hafi verið skoðaðir um daginn. Að undanförnu hefur sú staða komið upp að nálgist skoðunarskip hrefnu er hún fljót að láta sig hverfa. Guðmundur segir að þessar veiðar séu gegn öllum loforðum stjórnvalda um að fara ekki inn á þau svæði sem hvalaskoðunarskipin færu um. „Það gerur aldrei farið saman að skjóta dýr á sama svæði og við erum að skoða þau,“ segir Guðmundur. Gæfu dýrin, svo kallaðir skoðarar sem eru hluti af hrefnustofninum, eru söluvara skoðunarskipanna. Þessi dýr eru jafnframt auðveldasta bráðin fyrir veiðarnar. Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar í fyrra kom í ljós að færri hvalir veiddust í dýpri höfum en ætlað var og segir Guðmundur að til að fylla upp í kvótann hafi veiðar færst innar og upp undir land og gæti hræið sem fannst á dögunum mögulega tengst þessu. Guðmundur segir enn fremur að hvalveiðimenn hafi verið í vandræðum með að ná hrefnu um allt landa nema á Faxaflóa. Þar hafi verið mikið æti í allt sumar og hvalveiðimenn fylli upp í kvótann með því að fara inn á þau svæði sem hvalaskoðunarskipin fari um, annars væru þeir ekki að spyrjast fyrir um ferðir hvalaskoðunarskipanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×