Innlent

Langt í löggæslu í Reykhólasveit

MYND/Róbert Reynisson
Sveitarstjóri Reykhólasveitar er ósáttur með löggæslu í sinni sveit og segir engan þéttbýliskjarna á landinu eiga jafn langt að sækja til sinnar lögreglustöðvar. Lögreglustöðin sem er á Patreksfirði er í um 200 kílómetra fjarlægð og er leiðin þangað oft erfið yfirferðar. Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri Reykhólahrepps, er uggandi yfir löggæslumálum á Reykhólum þar sem um 100 búa í þorpinu og hátt í 300 í sveitinni allri. Hann segir fjóra lögregluþjóna á Patreksfírði eiga að þjóna bæði vestur og austur Barðastrandarsýslu og hann segir gallann vera þann að fjarlægðin til Patreksfjarðar sé 200 kílómetrar. - Næsta lögreglustöð er í Hólmavík en þangað eru rúmir 60 kílómetrar og vegurinn á milli er aðeins sumarvegur. Eins eru 75 kílómetrar í Búðardal en þar eru löggæslumálin heldur ekki með sterkast móti. Sýslumaðurinn í Dalabyggð hefur aðeins einn lögregluþjón í sinni þjónustu sem er einsdæmi. Skelfilegt banaslys varð í Reykhólasveit um síðustu helgi og þrátt fyrir góðan vilja lögreglunnar á Patreksfirði tók það þá 1 og hálfan tíma að komast á staðinn. Lögreglan í Búðardal var þó stödd nokkuð nærri. Einar segir að fyrir nokkrum árum, sem var fyrir hans tíð á staðnum, hafi lögreglan þurft að fara frá Patreksfirði til Brjánslækjar, og fara þaðan með Baldri til Stykkishólms og keyra landleiðina til Reykhóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×