Erlent

Áhöfnin sýndi mikið áræði

Það tók áhöfn Air France vélarinnar sem hlekktist á í Toronto innan við tvær mínútur að koma öllum 309 farþegum sínum út úr vélinni. Aðstoðarflugmaðurinn hljóp svo um brotinn og brennandi flugvélarskrokkinn til þess að ganga úr skugga um að enginn hefði verið skilinn eftir. Slökkviliðsstjóri flugvallarins í Toronto bar mikið lof á áhöfnina, sem og farþegarnir. Enn er allt á huldu um ástæðuna fyrir þessu óhappi. Miklar þrumur og eldingar voru þegar vélin var að lenda. Farþegarnir segja að ljósin í farþegarýminu hafi skyndilega slökknað rétt í því sem vélin lenti. Þeim þótti lendingin eðlileg og byrjuðu að klappa en vélin hægði lítið á sér fyrr en hún fór út af brautarendanum og ofan í stóran skurð þar sem hún brotnaði og eldur kom upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×