Erlent

Segist ekkert muna eftir börnunum

Móðirin sem talin er hafa myrt níu kornabörn sín í Þýskalandi segist ekkert muna eftir börnunum. Hún hafi verið dauðadrukkin þegar þau fæddust í heimahúsi. Eiginmaður konunnar og eldri börn hennar, sem eru undir tvítugt, segjast heldur ekki hafa tekið eftir því að hún var með barni. Konan segir þýsku lögreglunni að hún hafi átt börnin dauðadrukkin og muni fyrir vikið ekkert eftir því sem gerðist, utan í einu tilfelli. Eftir fæðingu hafi hún lagt teppi yfir barnið og sofnað áfengisdauða og þegar hún rankaði við sér var barnið ekki lengur á lífi. Hún neitar því hins vegar með öllu að hafa beitt börnin sín ofbeldi. Dagblaðið Märkische Oderzeitung hefur eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að talið sé að konan hafi kæft öll börnin með kodda en það hefur ekki verið staðfest. Lík níu kornabarna fundust á sunnudag í blómapottum, fiskabúri og fleiri ílátum á lóð foreldra konunnar í austurhluta Þýskalands. Grunur beindist strax að konunni og var hún handtekin. Sérfræðingar rannsaka nú bein barnanna til að skera úr um kyn þeirra og nákvæman aldur þegar þau voru drepin. Leitarhundar eru notaðir til að kanna hvort að hugsanlega leynist fleiri lík á lóðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×