Erlent

Önnur geimganga Discovery-áhafnar

Tveir geimfarar úr áhöfn geimferjunnar Discovery eru í geimgöngu sem stendur og liggur leið þeirra undir ferjuna þar sem þeir verða að finna einhverja leið til að gera við hana.   Geimfaranum Steve Robinson áskotnaðist sá vafasami heiður að fara fyrstur geimfara undir ferjuna í tuttugu og fjögurra ára sögu hennar. Þar á hann svo sjálfur að finna lausn á vandanum sem við blasir. Þéttikantar sem standa nokkra sentímetra út úr botninum gætu valdið hættu þegar hún kemur aftur inn í gufuhvolfið þar sem hitastigið í kring gæti orðið margfalt það sem eðlilegt telst. Óvíst er um afleiðingarnar. Robinson verður að toga í þéttikantana og laga til eða skera þá hreinlega af ef ekkert annað gengur. Sérfræðingar NASA hafa sagt að það ætti ekki að vera mjög flókið, en jafnframt að jafn auðvelt sé að valda meiri skaða í leiðinni. Robinson verður til dæmis að passa að reka ekki hjálminn sinn í botninn. Takist þessi viðgerð er hugsanlegt að farið verði í aðra geimgöngu á föstudag til að laga einangrun við glugga flugstjóra ferjunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×