Erlent

Stokkið inn í 21. öldina

Alexandria í Bandaríkjunum er einhver elsti bær landsins. Nú á hins vegar að taka þar stórt stökk inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Alexandria er nánast hluti Washington-borgar, gamall bær í frönskum stíl þar sem gangur lífsins virðist á köflum aðeins hægari en annars staðar í grennd. Það þýðir hins vegar ekki að bærinn og íbúar hans séu aftarlega á merinni, þvert á móti. Til að vera samkeppnishæf vilja bæjaryfirvöld setja upp þráðlausan og ókeypis Netaðgang fyrir alla í bænum, hvar sem þeir eru. Gestir njóta sömu réttinda og skattgreiðendur. Alexandri yrði því nánast í heild sinni heitur reitur fyrir netnotendur. Kostnaðurinn reyndist ekki mikill. Það kostaði um þrettán hundruð þúsund að setja upp fjögur öflum loftnet til að bjóða upp á aðganginn. Alls hafa áttatíu borgir og bæjarfélög vestan hafs valið þennan sama kost til að vera í fremstu víglínu í samkeppni um hylli netnotenda. Það eru þó ekki allir ánægðir með þetta, eins og talsmenn símafyrirtækja sem segja þetta framtak vera vafasama notkun á peningum skattgreiðenda sem hægt væri að nota í annað þarfara. Því er þrýst á þingmenn á Bandaríkjaþingi að sjá til þess að fyrirætlanir þeirra sem vilja bjóða upp á frítt net gangi ekki eftir. Í Alexandríu halda menn hins vegar ótrauðir áfram og segja að íbúar í bænum eigi að vera með í tæknibyltingu tuttugustu og fyrstu aldar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×