Erlent

Geimganga Discovery-áhafnar hafin

Geimfarar um borð í Discovery eru nú í geimgöngu og búa sig undir að gera við skutluna. Hún varð fyrir skemmdum í flugtaki í vikunni, svipuðum þeim sem skutlan Columbia varð fyrir 2003. Sérfræðingar NASA segja allt í himnalagi. Tveir geimfarar um borð í geimskutlunni Discovery eru sem stendur í geimgöngu, 358 kílómetrum yfir Suðaustur-Asíu. Þeir eiga á næstu sex klukkustundum að kanna hvort þeir geti gert við einangrunarflísar sem skemmdust í flugtaki sem og hluta vængjar sem laskaðist. Viðgerðir af þessu tagi hafa aldrei verið gerðar úti í geimnum og því eiga geimfararnir að æfa sig fyrst. Þessir hlutar skutlunnar eiga að vernda hana þegar hún kemur aftur inn í lofthjúp jarðar. Talsmenn geimferðarstofnunar Bandaríkjanna, NASA, segja engar vísbendingar um að ferjunni sé hætta búin þrátt fyrir skemmdirnar en halda því opnu að reynt verði að gera við skutluna á sporbraut. Skemmst er að minnast þess þegar geimskutlan Columbia sundraðist þegar hún kom inn í lofthjúpinn. Skemmdir höfðu einnig orðið á henni við flugtak og komst logandi gas inn í skutluna fyrir vikið. Öll áhöfnin fórst. Ferð Discovery er sú fyrsta frá því slysi og NASA eyddi bæði miklum tíma og yfir milljarði dollara í að tryggja að samskonar atvik endurtæki sig ekki. Það er því mikil áfall að flísar hafi losnað af skutlunni í flugtaki. Geimskutluflotinn er í flugbanni þangað til tekist hefur að tryggja að svona vandamál endurtaki sig ekki. Geimfararnir sem eru í geimgöngunni eiga einnig að huga að Alþjóðlegu geimstöðinni og gera við bilaða hluta hennar. Alls er stefnt að þremur geimgöngum áður en Discovery á að snúa aftur til jarðar, 7. ágúst næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×