Erlent

Morðingi Gogh í lífstíðarfangelsi

Lífstíðardómur var í morgun kveðinn upp yfir Mohammed Bouyeri sem játaði að hafa drepið hollenska kvikmyndagerðarmanninn Theo van Gogh. Hann kvaðst myndu gera slíkt hið sama á ný, hefði hann til þess tækifæri. Bouyeri réðst að van Gogh þar sem hann hjólaði til vinnu í nóvember 2004. Hann skaut og stakk van Gogh, skar hann á háls og kom fyrir fimm blaðsíðna hótunarbréfi á líkinu. Bouyeri gekkst við morðinu við réttarhöldin og sagði trú sína ástæðuna en hann er múslími af marokkósku bergi brotinn en fæddur og uppalinn í Hollandi. Van Gogh hafði meðal annars gert mynd þar sem því var haldið fram að íslam leyfði ofbeldi gegn konum. Hótunarbréfinu var beint gegn handritshöfundinum, Ayaan Hirsi Ali, sem er þingmaður og hefur verið í felum æ síðan. Í kjölfar morðsins voru gerðar árásir á moskur í Hollandi, á trúarskóla og kirkjur. Óttast var að þolinmæði og umburðarlyndi væru á undanhaldi í landi sem lengi vel var þekkt fyrir þau gildi. Umræða stendur enn í Hollandi um hvernig eigi að taka á harðlínu-íslamistum. Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að Bouyeri hefði myrt van Gogh á skelfilegan hátt og hefði ekki sýnt neina iðrun. Víst er að Bouyeri er því sammála: hann kvaðst við réttarhaldið raunar myndu gera slíkt hið sama fengi hann til þess tækifæri. Van Gogh hefði móðgað íslam. Af þeim sökum taldi dómarinn þá leið eina færa að vernda samfélagið ótímabundið fyrir Bouyeri og dæmdi hann í ævilangt fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×