Innlent

Þrjátíu flóttamenn til Reykjavíkur

Undirbúningur fyrir komu 31 flóttamanns hingað til lands stendur yfir og gengur vel að sögn Atla Viðars Thorstensen, verkefnisstjóra hjá Rauða krossi Íslands. Nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir en vonast er til þess að fólkið komi áður en grunnskólar hefjast þann 22. ágúst. Flóttamannahópurinn samanstendur af 24 Kólumbíumönnum og sjö eru frá Kosovo. Um sjö fjölskyldur er að ræða og hafa nítján flóttamannanna ekki náð átján ára aldri. Einstaklingarnir sem hingað koma hafa þegar verið valdir í framhaldi af utanferð sendinefndar sem þar tók viðtöl við fólkið segir Atli. Allir flóttamennnirnir setjast að í Reykjavík og er þetta í fyrsta skipti í rúm 25 ár sem flóttamenn koma til Reykjavíkur að sögn Drífu Hrannar Kristjánsdóttur, verkefnisstjóra á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur með höndum að útvega fólkinu íbúðir auk þess að koma börnum fyrir í grunnskólum og leikskólum. "Undirbúningurinn gengur samkvæmt áætlun og við höfum í nógu að snúast," segir Drífa. Tekist hefur að finna húsnæði fyrir flestar fjölskyldnanna en reynt verður að koma þeim fyrir nærri Austurbæjarskóla til þess að börn og ungmenni eigi ekki langt að sækja í skóla. "Í hópnum frá Kólumbíu eru margar einstæðar mæður með mörg börn," segir Drífa. Reykjavíkurdeild Rauða krossins sér um að útvega fólkinu húsgögn og innbú að sögn Atla. Þá verður komið á fót sérstöku stuðningsmannakerfi og leiðbeina þrjár til fjórar stuðningsfjölskyldur hverri flóttamannafjölskyldu að komast inn í íslenskt samfélag. Flóttafólk hefur komið hingað til lands á hverju ári síðan árið 1996 með tveimur undantekningum. Atli segir fólkinu almennt hafa gengið vel að aðlagast samfélaginu og að nær allir hafi fasta atvinnu. Félagsmálaráðuneytið kostar verkefnið en kostnaður við flóttafólkið í ár nemur um 40 milljónum að því er fram kom í viðtali við Árna Gunnarsson, formann flóttamannaráðs, í Hádegisútvarpi Talstöðvarinnar í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×