Erlent

Kærður fyrir afneitun þjóðarmorðs

Tyrkneskur stjórnmálamaður sætir nú sakarannsókn í Sviss vegna ummæla sinna um að þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á tímum fyrri heimsstyrjaldar og í kjölfar hennar væri "lygi". Rannsóknin byggir á gruni um að maðurinn, Dogu Perincek, sem á tímabili var formaður Verkamannafloks Tyrklands, hafi brotið gegn svissneskum lögum sem banna hatursáróður og kynþáttamisrétti. Perincek hélt ræðu í Winterthur í fyrri viku í tilefni af því að 82 ár voru þá liðin frá því að Lausanne-samningarnir voru gerðir, en í þeim voru landamæri Tyrklands nútímans ákveðin. Hann er sakaður um að afneita þjóðarmorði með því að hafa í ræðunni sagt að fullyrðingar um þjóðarmorð á Armenum væru "lygar heimsvaldasinna". Talsmenn Armena segja að um ein og hálf milljón Armena hafi verið drepin er hermenn soldánsins hröktu þá úr austurhéruðum Tyrklands á árunum 1915-1923. Tyrknesk yfirvöld hafa staðfastlega neitað að viðurkenna að þjóðarmorð hafi verið framið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×