Sport

Inter aflýsir vegna hryðjuverka

Ítalska knattspyrnuliðið Inter Milan aflýsti í dag fyrirhugaðri æfingaferð sinni til Englands af öryggisástæðum í ljósi hryðjuverkanna í London. Liðið átti að leika við Portsmouth, Leicester, Norwich og Crystal Palace á Englandi á komandi vikum. Ákvörðun félagsins hefur valdið miklum vonbrigðum og reiði meðal félaganna fyrrnefndu og kemur skiljanlega niður á undirbúningstímabili liðanna. Eini leikurinn sem fram hefði farið í London þar sem sprengingarnar urðu í neðanjarðarlestakerfinu er leikurinn gegn Crystal Palace svo menn velta fyrir sér nauðsyn ákvörðunar Inter. Milan Mandaric stjórnarformaður Portsmouth lýsti yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun ítalska félagsins á Sky sjónbvarpsstöðinni fyrir stundu og sagðist hafa áhyggjur þar sem þetta væri bein afleiðing af hryðjuverkunum. "Þessi ákvörðun Inter er í raun að senda hryðjuverkamönnum þau skilaboð að þeir geti stjórnað lífi almennings" sagði Mandaric m.a. en hann íhuga nú málsókn á hendur Inter Milan. Óttast menn nú mjög að fleiri félög fari að ráði Inter í framhaldinu og hreinlega neiti að leika á Englandi í vetur af ótta við hryðjuverk sem virðast hafa heltekið landsmenn. Það myndi hafa daprar afleiðingar fyrir ensku félagsliðin í Evrópukeppnunum í vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×