Erlent

Hungursneyð í Níger

Hungursneyð ríkir í Afríkuríkinu Níger en þar búa 3,6 milljónir manna við alvarlega vannæringu. Börn eru talin í sérstakri hættu. Miklir þurrkar hafa verið í suðurhluta Níger undanfarna mánuði og til að bæta gráu ofan á svart hafa engisprettur étið stærstan hluta uppskeru síðasta árs. Hjálparsamtökin World Vision vara við að tíunda hvern barn á þurrkasvæðunum geti dáið af völdum vannæringar. Sum barnanna í hjálparbúðum samtakanna eru svo illa haldin að þau geta ekki komið neinum mat niður. "Augljóslega eru ekki allir jafnir fyrir Guði. Sjáið okkur, ekkert okkar á neitt að borða," sagði móðir lítillar, sársvangrar stúlku við fréttamann BBC. Hjálparsamtök gagnrýna hversu litla aðstoð Nígermenn hafa fengið þar sem ljóst var í hvað stefndi fyrir mörgum mánuðum síðan. Þau telja að neyðin muni aukast á næstu mánuðum verði ekki gripið inn í. Níger er víðfeðmt en strjálbýlt eyðimerkurríki, eitt fátækasta land jarðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×