Erlent

Enn friðarvon

Ísraelsk stjórnvöld munu ekki senda hersveitir inn á Gazaströnd ef Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, tekst að koma í veg fyrir árásir vígamanna á Ísrael sagði Ehud Olmert, varaforsætisráðherra Ísraels. Hann segir Ísraela ekki vilja gera neitt sem geti orðið vatn á myllu herskárra Palestínumanna sem vilji binda enda á vopnahléið frá síðasta vetri. Hamasliðar og meðlimir samtakanna Íslamskt jíhad hafa skotið 120 sprengjum og 37 heimatilbúnum eldflaugum á ísraelskar byggðir á Gaza frá því á fimmtudag. Í gær hafði þó dregið heldur úr árásunum. Mahmoud Abbas hefur síðustu daga reynt að semja við herskáar hreyfingar Palestínumanna um að hætta árásum á Ísraela. Á föstudag skipaði hann öryggissveitum sínum að leggja til atlögu við herskáa Palestínumenn en síðan þá hefur hann farið samningaleiðina. Palestínumenn eru ekki þeir einu sem Ísraelar hafa áhyggjur af. 20 þúsund hermenn og lögreglumenn voru settir á vakt í suðurhluta Ísraels í gær vegna göngu þar sem mótmælt var að landnemabyggðir á Gaza yrðu lagðar niður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×