Innlent

Fundu einstakan bronspening

Einstakur bronspeningur frá fimmtándu öld fannst við fornleifauppgröft við Skriðuklaustur í fyrradag. Klausturbyggingin sem verið er að grafa upp varpar nýju ljósi á starfsemi klaustursins og hefur það verið mun stærra en áður var talið. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur stjórnar uppgreftrinum en að honum standa Minjasafn Austurlands, Gunnarsstofnun og Þjóðminjasafnið. Hún segir rannsóknina skera sig úr einkum fyrir það að hér sé að koma í ljós heildstæð mynd af klaustri í kaþólskri tíð sem ekki hafi fengist áður, hvorki með fornleifarannsóknum né rituðum heimildum.  Margir hlutir hafa fundist við uppgröftinn sem tengjast klausturstarfinu, kertastjakar og fleira, en einnig lækningatæki sem sýna að þar hafi verið stundaðar lækningar, gluggi af klaustrinu og fleira. Í fyrradag fannst svo svokallaður „reiknipeningurr“ sem er sjaldgæft að finnist hérlendis. Peningurinn sem slíkur var verðlaus á sínum tíma en hann var meðal annars notaður til að reikna tíund og fleira. En það hefur ýmislegt komið á óvart varðandi klausturbygginguna sjálfa, sérstaklega hvað hún er heilleg. Einnig kemur á óvart hversu gríðarlega stór byggingin hefur verið. Ítarlega verður fjallað um þetta mál í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og sýndar myndir frá uppgreftrinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×