Erlent

Danir taki hótanir alvarlega

Danmörk er næsta skotmark hryðjuverkamanna í Evrópu, segja samtökin al-Qaida í nýrri yfirlýsingu. Hryðjuverkasérfræðingur segir að Danir verði að taka endurteknar ógnanir um árás alvarlega. Samtökin sem stóðu að baki árásunum í Madríd í fyrra, og kennd eru við Abu Hafs al-Masri, birtu yfirlýsingu á netinu á sunndaginn, skrifar dagblaðið Jyllands Posten í morgun. Í yfirlýsingunni er Allah þakkað fyrir aðstoðina við árásirnar í London í síðustu viku, sem eru sagðar tákna upphafið að stríði. Ennfremur segir í yfirlýsingunni: „Þetta er aðvörun til allra evrópskra landa sem enn hafa hermenn í löndum múslima, en fyrst og fremst til Danmerkur. Það verður ekki öruggt í löndum ykkar, svo lengi sem hermenn ykkar, morðingjarnir, eru til staðar í múslimskum löndum." Þetta er í annað skiptið sem Danmörku er hótað beint, í kjölfar hryðjuverkaárásanna í London. Bandarískur sérfræðingur í hryðjuverkum segir í viðtali við Jyllands Posten að Danmörku stafi í sjálfu sér ekki hætta af þessum samtökum, og bendir á að þau hafi á undanförnum árum lýst svo til öllum hryðjuverkaárásum í heiminum á hendur sér. Rita Katz segir hins vegar að Danir þurfi að taka það alvarlega að Danmörk sé nefnd oftar í svona tilkynningum. Það gæti haft þau áhrif að einhver taki áskoruninni, eins og hún orðar það. Þessi orð Ritu Katz byggjast á því að Al Qaida séu ekki ein samtök, heldur hugmyndafræði sem hópar víðs vegar um heim aðhyllast, og að hryðjuverkin séu framkvæmd í nafni hugtaksins. Þannig segir Rita að meðlimir slíkra minni samtaka gætu litið á þessar yfirlýsingar sem blessun Al Qaeida á að Danmörk sé löglegt skotmark. Í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær, var sagt frá nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir dagblaðið Berlingske Tidende, sem sýnir að 75% Dana telja líklegt að öfgafullir múslimar framkvæmi hryðjuverk í Danmörku á næstu árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×