Erlent

Tugir farast í sprengjuárásum

Að minnsta kosti fjörutíu manns létust í fimm sjálfsmorðsárásum í Írak í gær. Mannskæðasta árásin átti sér stað þegar maður sprengdi sig í loft upp fyrir utan skráningarstöð hersins við flugvöllinn Muthana í Bagdad. Þar létust 25 og 47 eru særðir. Allmargar sjálfsmorðsárásir hafa verið gerðar á skráningarstöð hersins á þessum stað og lést 21 í árás á hana í febrúar. Aðrar árásir voru gerðar í borgunum Mosul og Kirkuk og létust þar samtals sjö manns og tugir eru særðir. Sjö íraskir tollverðir létust svo þegar tveir bílar, hlaðnir sprengiefnum, sprungu við landamæri Íraks og Sýrlands. Bandarískir hermenn urðu að loka landamærunum tímabundið í kjölfar sprenginganna. Landamæri Íraks og Sýrlands eru afar ótraust og þau eru talin helsta aðgönguleið erlendra öfgamanna sem berjast með andstöðunni í Írak. Þessar fimm árásir hafa orðið til þess að fjöldi látinna er kominn yfir 1.500 manns frá því að forsætisráðherra Íraks, Ibrahim al-Jaafari, tók við völdum í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×