Erlent

Fækkun í herliðum á næsta ári

Bandaríkjamenn og Bretar ætla að fækka um helming í herliði sínu fyrir mitt næsta ár, samkvæmt leyniskýrslu breska varnarmálaráðuneytisins, sem lekið hefur verið í fjölmiðla. Átján fórust og yfir fjörutíu særðust í sjálfsmorðssprengjuárás í Bagdad í morgun. Árásin var gerð á skráningarstöð nýliða fyrir írakska herinn. Þetta er mannskæðasta árásin í Írak í þessari viku, en vikan þykir raunar hafa verið hlutfallslega róleg. Al-Qaeda í Írak lýsti árásinni þegar í stað á hendur sér. Þrír fórust í annarri sjálfsmorðsárás í morgun í borginni Kirkúk og tíu særðust. Í Kirkúk hefur verið mikil spenna milli ólíkra þjóðarbrota en svæðið er auðugt af olíu og vilja allir fá yfirráð yfir því. Í Mósúl voru fjórir lögreglumenn drepnir og þrír særðust þegar sjálfsmorðssprengjuárás var gerð á bílalest lögreglustjórans þar. Ófriðurinn heldur því áfram en þrátt fyrir það stefna Bandaríkjamenn og Bretar að því að kalla um helming herafla síns í Írak heim fyrir mitt næsta ár, samkvæmt leynilegri skýrslu breska varnarmálaráðuneytisins sem lekið var til fjölmiðla. Sem stendur eru átta þúsund breskir hermenn í Írak, en um mitt næsta ár er stefnt að því að þeir verði aðeins þrjú þúsund og fimm hundruð. Sextíu og sex þúsund bandarískir hermenn yrðu eftir í stað hundrað sjötíu og sex þúsunda nú. Í skýrslunni, sem sögð er frá varnarmálaráðherranum John Reid, kemur fram að varnarmálaráðuneytið í Washington vilji sjá mikinn niðurskurð meðan aðrir í fjölþjóðaliðinu vilji fara sér hægar. Bandarískir hershöfðingjar í Írak munu vera á sömu skoðun. Ennfremur kemur fram að Bandaríkjamenn telji fært að færa Írökum stjórnina í fjórtán af átján héruðum fyrir mitt næsta ár. Talsmenn varnarmálaráðuneytisins í Washington segjast ekkert kannast við málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×