Erlent

Graham segist eiga skammt eftir

Einhver frægasti predíkari Bandaríkjanna býr sig undir lokablessunina. Billy Graham segir dauðann nálgast og heldur sem stendur síðustu samkomur sínar. Graham hefur fyllt landa sína andagift og fyllt heilu fótboltavellina af áköfum trúbræðrum og -systrum. Hann var eldklerkur sem náði athygli - svo mikilli að talið er að hann hafi predikað til fleiri á ferli sínum en Jóhannes Páll páfi II. Hann hefur verið trúarlegur ráðgjafi forseta, frá Eisenhower til Bush yngri, sem segir Graham hafa leitt sig á rétta braut. En nú er hann orðinn áttatíu og sex ára gamall og komið að síðustu krossferð hans. Eldklerkurinn er orðinn gamall og veikur og þurfti göngugrind til að komast leiðar sinnar á blaðamannafundi í gær. Þar sagðist hann sífellt vera spurður um það undanfarið hvort hann óttist dauðann og svar hans sé nei; hann hlakki nefnilega til að hitta Guð augliti til auglitis. Graham þjáist af Parkinsonsveiki, ristilkrabba og er með vatnsgúlp við heila. Kraftmikil röddin er nú orðin að hálfgerðu hvísli en fólkið mætti samt og hlustaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×