Erlent

Fundu lík af 2500 ára stúlku

Þýska lögreglan var kölluð til þegar líkamsleifar unglingsstúlku fundust í Neðra-Saxlandi. Lögreglan fól hins vegar fornleifafræðingum málið. Líkið var 2500 ára gamalt en ótrúlega vel varðveitt. Það er talið vera einn merkasti fornleifafundur Evrópu í áratugi. Það voru mótekjumenn í Uchter sem fundu fyrstu líkamshlutana árið 2000, bein í jörðu. Lögregla var kölluð til en eftirgrennslan hennar skilaði litlu. Í janúar á þessu ári fór lögregla aftur á stúfana þegar mótekjumenn fundu mannshönd á sama svæði. Við nánari eftirgrennslan var ákveðið að kalla fornleifafræðinga til sem komust að því  að höndin og aðrir líkamspartar sem þeir fundu á svæðinu í kjölfarið tilheyrðu táningsstúlku sem var uppi um 650 árum fyrir Krist. Hún lést í mýri sem nú hefur verið þurrkuð upp. Slíkir mýrarfundir verða æ sjaldgæfari því færst hefur í aukana að stórvirkar vinnuvélar séu notaðar við mótekju. Dr. Henning Habmann, forstjóri þýsku fornleifastofnunarinnar, segir um stórfrétt að ræða í fornleifafræðiheiminum. Líkja megi henni við ísmanninn Ötze. Fornleifafræðingar telji að mýrarstúlkan geti einnig svarað mörgum spurningum um lífsskilyrði á járnöld, þ.e.a.s. í kringum 700 fyrir Krist. Mýrarstúlkan frá Uchter hefur nú fengið hvílustað á Þjóðminjasafninu í Hanover þar sem almenningi gefst kostur á að berja hana augum næstu vikur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×