Erlent

Fundu bát með flóttamönnum

Íslendingar í ævintýraleit lentu í öðruvísi ævintýrum en þeir áttu von á við strendur Kanaríeyja. Í stað þess að landa sverðfiskum fundu þeir bát með flóttamönnum frá Afríku. Hópur íslenskra ferðalanga á Lanzarote leigði sér bát til að fara á sverðfiskaveiðar. Þeir urðu þó lítið varir uns þeir töldu sig skyndilega sjá stóran fisk í fjarska. Jói Fel, einn ferðalanganna, segir að svo hafi þeir séð einhvern veifa fána og þá hafi komið í ljós að um var að ræða þriggja metra bát. Skipstjórinn á skipi ferðalanganna hafi farið í kerfi og hringt í lögregluna en í ljós hafi komið að þetta voru flóttamenn sem að öllum líkindum voru frá Marokkó. Jói segir enn fremur að ferðalangarnir hafi ekki mátt yfirgefa flóttamennina fyrr en lögreglan kæmi á staðinn þannig að ekkert hafi orðið úr veiðunum. Þegar lögreglan hafi komið og málið hafi verið kannað nánar hafi tæplega 30 menn stigið upp úr litla bátnum, en þeir hafi að öllum líkindum verið á bátnum í nokkra daga. Pínulítill utanborðsmótor hafi verið á bátnum sem ekki hafi virkað og hann viti ekki hvort flóttamennirnir hafi verið kalla á ferðalangana til þess að hjálpa sér að hvort þeir hafi vilja að lögreglan sækti þá. Auk þess var óttast að mennirnir gætu verið vopnaðir. Jói segir það nokkuð skrýtið að þegar mennirnir hafi stigið upp úr bátnum hafi þeir allir verið fullklæddir og einn hafi meira að segja verið í síðum Frakka. Ferðalöngunum hafi verið sagt að ef flóttamennirnir hefðu náð landi hefðu þeir strax getað horfið inn í mannfjöldann án þess að nokkur tæki eftir þeim. En áður en að því kom gómaði spænska lögreglan þá. Jói segist hafa heyrt hróp og köll, jafnvel óp, þegar lögreglan fór um borð í litla bátinn. Flóttamennirnir verða nú sendir til síns heima og skipstjóranna á litla bátnum bíður fangelsisvist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×