Erlent

Sagður haldinn hreinlætisáráttu

Saddam Hussein, fyrrverandi Íraksforseti, er hinn viðkunnanlegasti, hefur dálæti á kartöfluflögum og er haldinn hreinlætisáráttu. Fimm fangaverðir, sem gættu Saddams um tíu mánaða skeið, sjá ástæðu til að koma þessum upplýsingum á framfæri og einnig því að Saddam telji sig enn vera forseta Íraks. Bandarískir fjölmiðlar hafa birt viðtöl við fangaverðina sem hefur verið fyrirskipað að láta ekkert uppi um það hvar Saddam Hussein er í haldi og bíður réttarhalda. Þeir eru þó alls ófeimnir við að segja frá persónulegum kynnum sínum af forsetanum fyrrverandi, segja hann hafa sýnt áhuga á þeirra persónulegu högum, ráðlagt þeim í kvennamálum og boðið þeim til Íraks þegar hann kæmist aftur til valda. Sean O'Shea, einn þeirra, segir að sín fyrstu kynni af forsetanum fyrrverandi hafi verið þegar hann hafi komið út úr klefa sínum og lagt hönd á hjartastað og spurt hvernig hann hefði það. Hann hafi bæði viljað brosa en einnig vera ógnvekjandi. Jonathan Reese, sem einnig gætti Saddams, segist hafa sagt við Saddam að það væri ánægjulegt að hitta hann en eftir á hefði hann öskrað innra með sér að það væri ekki gleðilegt. Ekki er annað að heyra en Saddam búi við ágætis kost í varðhaldinu. O´Shea segir að fangvörðunum hafi verið skipað að koma fram við hann af kurteisi og virðingu, öfugt við það sem gilt hafi í Abu Ghraib fangelsinu. Eftir að það mál hafi komið upp hafi allt verið mjög innilegt og Saddam hafi komið vel fram við verðina. Í morgunmat hafi hann viljað fá Raisin Bran hveitiklíð en hafi þótt Fruit Loop ávaxtahringirnir vondir. Hann hafi einnig haldið upp á Cheetos- kartöfluflögur en eftir að þær hafi klárast hafi Doritos-flögur verið í uppáhaldi hjá forsetanum fyrrverandi. Saddam mun hafa rifjað upp fyrir þá daginn sem Bandamenn réðist inn í Írak árið 2003. Höllin sem Saddam hugðist flýja til var sprengd og á meðan skriðdrekar bandamanna óku um göturnar flýði Saddam í leigubíl. Þá hafi hann sagt að Írakar hefðu ekki átt gereyðingarvopn og þau myndu ekki finnast. Í sömu andrá hafi hann ekki sagst vera í neinum tengslum við Osama bin Laden. Saddam var tekinn höndum þegar hann fannst falinn í neðanjarðarholu í desember árið 2003. Bandarísk stjórnvöld hafa haldið því fram að þau hafi fengið upplýsingar um dvalarstað Saddams úr ýmsum áttum en það segir Saddam rangt. Aðeins einn maður hafi vitað um felustaðinn og sá hafi fengið greitt fyrir að halda honum leyndum. O´Shea segir hann hafa líkt sjálfum sér við Jesú og sagði manninn sem sveik hann hafa verið eins og Júdas. Forsetinn fyrrverandi ræddi einnig um syni sína sem her bandamanna banaði. O´Shea segir að Saddam hafi sagt að það væri gott að þeir skyldu hafa dáið fyrir guð og ættjörðina, en þetta hafi verið í eina skiptið sem hann hafi séð Saddam klökkna. Talsmaður Pentagon vildi ekkert tjá sig um yfirlýsingar fangavarðanna. Utanríkisráðherra Íraks tilkynnti í dag að réttarhöldin yfir Saddam Hussein hæfust á þessu ári. Ákæran á hendur honum er viðamikil og tekur til glæpa gegn mannkyni í þau 23 ár sem Saddam var við völd í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×