Erlent

Bolton veldur enn vandræðum

Repúblikönum í bandarísku öldungadeildinni mistókst á mánudagskvöld að knýja í gegn samþykki tilnefningar John Bolton sem fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Demókratar hafa beitt málþófi til að hindra tilnefninguna. Atkvæðagreiðsla um að ljúka umræðunni fór 54-38, en tvo þriðju atkvæða þarf til að stöðva málþófið. Niðurstaðan þykir vandræðaleg fyrir George W. Bush forseta, en þetta er í annað skiptið á mánuði sem ekki tekst að stöðva málþófið. Áður hafði mistekist að fá stuðning við tilnefninguna í nefnd. Demókratar vilja fá frekari upplýsingar um störf Boltons hjá utanríkisráðuneytinu áður en þeir hleypa málinu í gegn. Þar var hann sakaður um að beita starfsmenn óeðlilegum þrýstingi. Nú er talið að Bush muni íhuga að tilnefna Bolton án stuðnings frá öldungadeildinni eftir að hún fer í sumarleyfi. Bush vill sjá úrbætur á Sameinuðu þjóðunum og telur Bolton vera rétta manninn til að koma þeim áleiðis. Bolton hefur hins vegar verið þekktur fyrir að hafa horn í síðu samtakanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×