Erlent

Suu Kyi sextug í dag

Aung San Suu Kyi, leiðtogi lýðræðisafla í Burma, er sextug í dag. Hún situr í stofufangelsi í heimalandi sínu eins og hún hefur gert undanfarna áratugi. Meðal leiðtoga sem hafa sent henni afmæliskveðjur eru Nelson Mandela, Desmond Tutu, erkibiskup í Suður-Afríku, Dalai Lama, leiðtogi Tíbets, og George Bush, forseti Bandaríkjanna. Undir forystu Suu Kyi vann stjórnarandstaðan í Burma yfirgnæfandi kosningasigur árið 1990. Herforingjastjórnin ógilti kosningarnar og síðan hefur hún meira og minna setið í fangelsi. Suu Kyi minnir helst á Mahatma Gandhi í lífsviðhorfi sínu. Hún hvetur til friðsamlegrar andstöðu við herforingjastjórnina og er alfarið á móti hvers konar ofbeldisverkum.  Nokkrum sinnum hafa herforingjarnir reynt að sleppa henni úr stofufangelsi í von um að hún væri búin að fá nóg og léti af andstöðu sinni. En þessi smávaxna fíngerða kona hefur aldrei látið bugast og snarlega verið fangelsuð aftur. Suu Kyi hefur verið heiðruð á margan hátt af alþjóða samfélaginu. Meðal annars voru henni veitt friðarverðlaun Nóbels.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×