Sport

Kristján sparkaði í mig

Ljótt far er á baki Bjarna Hólms Aðalsteinssonar, leikmanns ÍBV, eftir spark sem hann fékk frá markverðinum Kristjáni Finnbogasyni hjá KR eftir leik liðanna á sunnudag. Þeir lentu saman Í baráttu um boltann á 74. mínútu leiksins og féllu báðir, dómarinn dæmdi Bjarna brotlegan. "Þegar við vorum að fara að standa upp þá sparkar Kristján skyndilega í bakið á mér. Ég var náttúrulega ekki ánægður með það, stóð upp og hljóp að honum en hann er nánast dottinn áður en ég kem við hann! Það er þá sem ég fæ að líta rauða spjaldið og er rekinn í sturtu." sagði Bjarni Hólm. Því er ljóst að Bjarni þarf að taka út leikbann sem hann er ekki sáttur við. Það eru slæm tíðindi fyrir ÍBV, sem sigraði leikinn gegn KR 2-1, því leikmannahópur liðsins er ekki breiður og baráttan í deildinni er ströng. "Ég er alveg helaumur í bakinu eftir þetta og þetta er í raun verra en það lítur út fyrir að vera. Það er nokkuð ljóst að þetta er mál sem eitthvað þarf að fara að skoða, þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kristján gerir svona hluti." sagði Bjarni en í byrjun móts var mikið rætt um háskaleg úthlaup Kristjáns eftir atvik í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar þegar KR og Fylkir áttust við. Dómararnir þora ekki að taka á þessu, þetta getur verið alveg stórhættulegt. Markverðir komast upp með mun meira en aðrir leikmenn og því þarf að breyta." sagði Bjarni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×